Fara í efni

Hallormsstaðaskógur

Egilsstaðir

Hallormsstaðaskógur er víðáttumesti skógur landsins og þekur um 740 hektara lands. Hallormsstaðaskógur var friðaður árið 1905 og varð þar með fyrsti þjóðskógur Íslands en Skógræktin hefur umsjón með þjóðskógum. Árið 1903 hófust þar tilraunir með plöntun erlendra trjáa en stórfelld ræktun hófst fyrst eftir 1950. Elsti lerkilundurinn var gróðursettur árið 1938 og heitir Guttormslundur, kenndur við Guttorm Pálsson sem var skógarvörður á Hallormsstað í 46 ár.

Skógurinn er vinsælt útivistarsvæði með fjölbreyttu landslagi. Þar er að finna um 40 km af gönguslóðum og merktum gönguleiðum, vinsæl tjaldsvæði og grillsvæði. Þá er þar merkilegt trjásafn með um 80 trjátegundum víðs vegar að úr heiminum, leiktæki og opin svæði og er skógurinn kjörinn til jurtaskoðunar og berja- og sveppatínslu.

Skógurinn sér fuglum fyrir mat, hreiðurstæði og vernd fyrir ránfuglum. Meðal algengra fugla í Hallormsstaðaskógi eru auðnutittlingur, músarrindill, glókollur, rjúpa og hrafn. Á sumrin eru þar einnig skógarþröstur, hrossagaukur og stundum sjást flækingar eins og svartþröstur, bókfinka og hringdúfa.