Fara í efni

Gljúfrabúi

Hvolsvöllur

Gljúfrabúi, sem er um 40 metra hár, er í landi eyðijarðarinnar Hamragarða sem Skógræktarfélag Rangæinga fékk að gjöf árið 1962 og er nú í eigu Rangárþings eystra. Ákveðin dulúð er yfir fossinum þar sem hann fellur ofan í djúpa gjá en framan við fossinn er mikill hamraveggur úr móbergi sem lokar fossinn af svo aðeins sést rétt efst í hann. Kletturinn sem lokar fossinn af kallast Franskanef. Áður fyrr töldu menn að hann og hamrarnir í kring væru bústaðir huldufólks. Hægt að fara úr skónum og vaða ána inn gilið og er það mögnuð upplifun. Hafa skal varann á þegar farið er inn gilið því hætta er á grjóthruni. Fyrir neðan Franskanef er gömul baðþró og inn af þrónni er lítill hellir sem heitir Ömpuhellir eftir einsetukonu sem þar á að hafa búið. Fyrir ofan Ömpuhelli eru tvær hvilftir inn í bergið sem nefnast Efra og Neðra ból. Í Neðra bóli var fyrr á tímum þurrkaður þvottur en í Efra bóli voru þurrkuð reipi og má enn sjá snaga í berginu í báðum þessum bólum. Gljúfrabúi er friðlýstur sem náttúruvætti.

Töluvert sunnan við Gljúfrabúa er lítið gil í hamraveggnum þar sem hægt er að fara upp á heiðina fyrir ofan og virða fyrir sér útsýnið yfir héraðið. Talað var um að fara upp Stíginn og lækurinn í gilinu nefndur Stígslækur. Stígurinn er enn nokkuð skýr, hálfgerðar tröppur eru upp þar sem er brattast. Rétt fyrir ofan brúnina eru leifar gamalla fjárhúsa frá Hamragörðum.

Gljúfrabúi, gamli foss!

gilið mitt í klettaþröngum!

góða skarð með grasahnoss!

gljúfrabúi, hvítur foss!

verið hefur vel með oss,

verða mun það enn þá löngum;

gljúfrabúi, gamli foss!

gilið mitt í klettaþröngum!

Úr „Dalvísu“ eftir Jónas Hallgrímsson