Fara í efni

Efra-Hvolshellar

Hvolsvöllur

Í landi Efra-Hvols eru þrír manngerðir hellar sem kallast einu nafni Efra-Hvolshellar. Hellarnir eru grafnir í fremur gróft þursaberg sem líklega er jökulberg að uppruna. Neðan til er bergið fínna, gert úr lagskiptum, víxllaga og skálaga sandsteini. Tveir hellanna eru samtengdir með göngum og nefnast þeir Efsti hellir og Miðhellir. Sá þriðji stendur stakur 20-30 metrum sunnar og nefnist Stóri hellir. Hann er um 42 metrar á lengd, og er talinn næstlengsti manngerði hellir á Íslandi. Ekki hafa fundist ummerki mannvistar í hellunum en það hefur ekki enn verið rannsakað með fornleifafræðilegum aðferðum. Síðast voru hellarnir notaðir sem fjárhús og hlaða en hafa staðið auðir og ónotaðir síðan 1943.

Loftop Stóra hellis hefur að hluta til hrunið og mold fyllt göngin. Búið er að moka út úr hellunum að hluta í samráði við Minjastofnun Íslands. Ekki er talin hætta af frekara hruni en þó skyldi fólk sýna aðgát. Hellarnir hafa verið friðlýstir síðan árið 1929 sem menningarminjar.

Upplýsingar um fleiri staði í nágrenninu: www.katlageopark.is