Fara í efni

Landmannalaugar

Landmannalaugar draga nafn sitt af heitri laug sem kemur undan Laugahrauninu. Landmannalaugar hafa verið áningastaður fólks um aldir og þar hafa fjallmenn á Landmannaafrétti hafst við í leitum svo lengi sem heimildir eru til um slíkar ferðir.

Frá Landmannalaugum má sjá mörg falleg fjöll; Barm, Bláhnúk, Brennisteinsöldu, Suðurnám og Norðurnám. Mikið er um líparít, hrafntinnu og líparíthraun á svæðinu og eru Landmannalaugar rómaðar fyrir litafegurð og einstaka náttúru.

Upphaf einnar vinsælustu gönguleiðar landsins, Laugavegarins, eru í Landmannalaugum og liggur leiðin þaðan um Hrafntinnusker, Álftavatn, Hvanngil, Emstrur og loks í Þórsmörk.

Í Landmannalaugum er aðstaða fyrir ferðamenn, sturtur og gisting rekin af Ferðafélagi Íslands, en auk þess er á svæðinu rekin hestaleiga á sumrin og lítið kaffihús.

Gjöld:
Umhverfisstofnun mun taka upp bókunarkerfi fyrir bílastæði í Landmannalaugum fyrir sumarið 2024. Þá verður nauðsynlegt að bóka bílastæði fyrir komu á svæðið og greiða fyrir það þjónustugjald. 

Fyrirkomulagið verður í gildi frá 20. júní til 15. september, alla daga vikunnar. Nánar upplýsingar hér.