Fara í efni

Katla

Eldstöð (1450 m y.s.) í suðaustanverðum Mýrdalsjökli, önnur þekktasta gosstöð landsins. Katla er venjulega hulin jökli en hefur að jafnaði gosið á 40-80 ára fresti. Brýst hún þá í ógurlegum hamförum undan jöklinum, bræðir hann á stóru svæði og orsakar feiknarleg vatnsflóð sem flæmast með jakaburði suður allan Mýrdalssand.

Heimildir geta um 16 gos í Kötlu en sennilega munu þau vera um 20. Sum Kötluhlaupa hafa verið geysimikil og hafa þau eytt byggð þeirri sem fyrrum var á Mýrdalssandi. Kötluhlaup sem kom árið 1311 hefur verið kallað Sturluhlaup. Það tók af marga bæi í svonefndu Lágeyjarhverfi og drukknaði allt fólk, að því er munnmæli herma, nema maður einn, Sturla að nafni. Hljóp hann með barn í vöggu upp á ísjaka og barst á honum út til hafs. Seinna rak jakann að landi og þau björguðust bæði.

Síðast gaus Katla árið 1918 og flæmdist vatnsflaumurinn þá yfir Mýrdalssand á stórum svæðum en olli ekki tjóni svo að teljandi væri.


Heimild: Íslandshandbókin útgáfa 1.0. Námsgagnastofnun 1995.