Fara í efni

Hekla

Eldfjallið Hekla er eitt frægasta eldfjall Íslands og það sem gosið hefur einna oftast í seinni tíð. Hekla er 1.491 m.y.s. og sést víðast hvar af á Suðurlandi. Hekla hefur um langt árabil haft viðurnefnið Drottning íslenskra eldfjalla og er fjallið þekkt víða um heim.

Mikil hjátrú hefur tengst Heklu og sú frægasta líklega sú að þar væri fordyri helvítis að finna og jafnvel helvíti sjálft. Fyrsta vitneskja af fjallgöngu á Heklu er frá 1750 þegar náttúrufræðingarnir Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson gengu á fjallið. Nokkuð vinsælt er að ganga á Heklu en mikilvægt er að göngumenn viti af þeirri hættu sem getur myndast ef til eldgoss kemur. Yfirleitt er gengið frá Skjólkvíum.

Hekla stendur á jarðskorpu þar sem Suðurlandsbrotabeltið og Suðurlandsgosbeltið mætast og skýrir það að miklu leiti tíð eldgos í fjallinu. En frá því að land byggðist hefur Hekla gosið árin; 1104, 1158, 1206, 1222, 1300, 1341, 1389, 1501, 1597, 1636, 1693, 1766, 1845, 1947, 1970, 1980, 1981, 1991 og 2000. Jarðfræðingar hafa marg ítrekað á undanförnum árum að Hekla sé tilbúin til að gjósa og geti gosið hvenær sem er, en fjallið gefur að jafnaði um klukkutíma fyrirvara á eldgosum.