Fara í efni

Ófærufoss - Nyrðri Ófæra

Ófærufoss er einstaklega fallegur foss í ánni Nyrðri-Ófæru og fellur í tveimur fossum ofan í Eldgjá. Yfir neðri fossinum var steinbogi til ársins 1993 en hann hrundi þá í ána í vorleysingum en áin fellur um gjána. Af Fjallabaksleið nyrðri er hægt að aka nokkurn spöl inn í Eldgjá og ganga þaðan að Ófærufossi en vegurinn liggur upp á austurbarm Eldgjár. Til að komast þangað þarf að aka Nyrðri-Ófæru á vaði, sem getur verið varasamt. Óhætt er að mæla með göngu upp á Gjátind, þaðan sem útsýni er frábært yfir Eldgjá, til fjalla við Langasjó og Síðuafrétt með Lakagígum.

Ófærufoss fellur ofan í Eldgjá á Skaftártunguafrétti. Eldgjá er u.þ.b. 40 km löng gossprunga, breidd hennar er víða um 600 m og dýptin nær allt að 200 m. Þegar hún myndaðist hefur líklega gosið í henni endilangri, sennilega í kringum árið 934.
Talið er að gossprungan nái undir Mýrdalsjökul. Úr Eldgjá hafa runnið mikil hraun niður um Landbrot og Meðalland og til sjávar við Alviðruhamra í Álftaveri. Hraunin, sem runnu frá henni, eru talin þekja 700 km² sem er mesta flatarmál hrauns á sögulegum tíma á jörðinni, þ.e. eftir síðustu ísöld.

Eldgjá er talin tilheyra sama eldstöðvarkerfi og Katla. Eldgjá er einstakt náttúrufyrirbæri og er á náttúrminjaskrá. Fyrirhugað er að Eldgjá og nærliggjandi svæði verði hluti af Vatnajökulsþjóðgarði.

Nú hafa komið fram kenningar um að afleiðingar þessa goss hafi ekki síður gætt í Evrópu en gossins í Lakagígum. Samkvæmt nýfundnum heimildum urðu á tíma gossins uppskerubrestir, pestir og hörmungar bæði í Evrópu og Miðausturlöndum. Þá eru líkur leiddar að því að þetta gos hafi valdið meira tjóni en Lakagígagosið.