Fara í efni

Hengifoss

Egilsstaðir

Hengifoss í Fljótsdal er einn af þekktari áfangastöðum Austurlands en hann er jafnframt þriðji hæðsti foss landsins, um 128 metra hár og afar tignarlegur. Í grennd við Hengifoss eru svo fjölmargir aðrir áhugaverðir viðkomustaðir sem vert er að heimsækja.

Hengifoss fellur í Hengifossgljúfur sem staðsett er í norðanverðum Fljótsdal, rétt innan við botn Lagarfljóts. Bergveggir gljúfursins sýna ólík jarðlög frá eldgosum á tertíertíma jarðsögunnar, blágrýti í bland við fagurrauð millilög sem gefa fossinum einstaka ásýnd og eru sívinsælt myndefni ferðafólks. Hengifossá á upptök sín í Hengifossvatni á Fljótsdalsheiði og rennur í gegnum gljúfrið og ofan í Lagarfljót.

Hvernig er best að komast að Hengifossi?

Frá Egilsstöðum er um tvær leiðir að velja. Hægt er að aka austan megin við Lagarfljótið í gegnum Hallormsstaðaskóg (vegur nr. 1 að Grímsá og þaðan yfir á veg nr. 931) eða norðan megin við fljótið í gegnum Fellabæ (vegur nr. 931, malarvegur á stuttum kafla) en vegalengdin er svipuð, um 35 km. 

Það er góð hugmynd að skoða ferðaleiðina Fljótsdalshringinn, en þar er að finna tillögur að skemmtilegum viðkomustöðum í kringum Hengifoss og Lagarfljót.

Gönguleiðin upp að Hengifossi

Frá bílastæðinu við Hengifoss liggur þægileg og vel merkt gönguleið upp að fossinum. Það tekur um 40-60 mínútur að ganga alla leið upp en leiðin er í heildina um 5 km. Fyrsti áfanginn frá bílastæðinu er upp tröppur en síðan tekur við malarstígur áleiðis að fossinum. 

Á leiðinni er gengið fram hjá Litlanesfossi, sem er umlukinn einstökum stuðlabergssveip. Hægt er að beygja af leið og fylgja slóða niður í gilið sem Litlanesfoss fellur í, en fara þarf að öllu með gát við gilbarminn sem er brattur og getur verið sleipur.

Ofarlega á gönguleiðinni er komið að upplýsingaskilti og þaðan er gott útsýni að fossinum og gljúfrinu. Hægt er að ganga ofan í gljúfrið sjálft og alveg að fossinum en mikilvægt er að fara varlega þar sem stígurinn getur verið blautur. Að standa ofan í gilinu og heyra fossinn bergmála í hamraveggjunum er einstök upplifun. Þegar lítið vatnsrennsli er í fossinum er hægt að ganga á bak við hann og inn í lítinn hellisskúta. Athugið að til að komast alveg að fossinum þarf að vaða yfir ána en á sumum árstíðum getur hún verið vatnsmikil og þar af leiðandi ófær. 

Best er að ganga sömu leið til baka niður á bílastæðið en ef vaðið er yfir ána er hægt að ganga niður norðan megin við ána en þar er þó ekki merkt gönguleið.

Þjónusta við Hengifoss

Gönguleiðin að Hengifossi er opin allt árið. Yfir sumartímann veita landverðir frá Vatnajökulsþjóðgarði upplýsingar um svæðið og leiðsögn upp að fossinum. Yfir vetrartímann er mikilvægt að göngufólk búi sig vel til fararinnar og skoði veðurspá og aðstæður vel áður en lagt er af stað. Nauðsynlegt getur reynst að vera með göngubrodda og ísaxir. Við bílastæðið eru upplýsingaskilti um svæðið, salerni og nestisaðstaða og eru gestir svæðisins hvattir til að ganga vel um þar.

Áhugaverðir staðir í nágrenninu

Í Fljótsdal og í nágrenni hans er ógrynni skemmtilegra viðkomustaða sem vert er að heimsækja fyrir eða eftir göngu upp að Hengifossi. Það er til dæmis tilvalið að líta við í Snæfellsstofu, gestastofu austursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs, þar sem er m.a. hægt að fræðast um gróðurfar og dýralíf svæðisins. Í næsta nágrenni er Skriðuklaustur, hið sérstæða heimili rithöfundarins Gunnars Gunnarssonar og þar er einnig hægt að skoða rústir miðaldaklausturs. Í Klausturkaffi, sem staðsett er á Skriðuklaustri, er svo tilvalið að setjast niður og bragða á kræsingum úr hráefni af svæðinu. Í Hallormsstaðaskógi er fjöldi göngu- og hjólaleiða og aðrir afþreyingarmöguleikar við allra hæfi auk ljómandi góðs tjaldsvæðis.

Yfir sumartímann er hægt að aka ferðaleiðina Um öræfi og dali sem liggur upp á hálendi Austurlands og koma við í Laugarfelli, Kárahnjúkum og Stuðlagili en vegurinn er aðeins fær vel búnum fjórhjóladrifsbílum.

Powered by Wikiloc