Fara í efni

Raggagarður

Súðavík

Upphaf fjölskyldugarðsins.
Frumkvöðull að þessum garði er formaður og framkvæmdastjóri áhuga-mannafélagsins um garðinn, Vilborg Arnarsdóttir ( Bogga ) í Súðavík.
Hún hafði lengi gengið með þá hugmynd í maganum, að reisa sumarleiksvæði sem ætlað væri til að auka fjölbreytni í afþreyingu fyrir fjölskyldur á norðanverðum Vestfjörðum.

Markmiðið með garðinum er að hlúa að fjölskyldum á svæðinu og efla útiveru og hreyfingu og um leið stuðla að ánægjulegri samveru foreldra og barna. Að halda áfram uppbyggingu Súðavíkur sem ferðamannabæjar og efla afþreyingu fyrir ferðamenn á svæðinu. Bogga kannaði áhuga heimamanna á þessu verkefni og kom í ljós að heimamenn, sumarhúsaeigendur og aðrir aðilar höfðu mikinn áhuga á verkefninu. Í framhaldinu var sótt um lóð fyrir fjölskyldugarðinn til hreppsnefndar Súðavíkur.

Hugsjónin varðandi garðinn og minningin.
Nafnið á garðinum er tilkomið vegna þess að frumkvöðull félagsins fór af stað með þetta verkefni og vinnuframlag sitt til minningar um son sinn Ragnar Frey Vestfjörð sem lést í bílslysi í Súðavík 17 ára gamall, 19. ágúst 2001.
Það er hennar vilji að minningin um drenginn hennar verði til þess að fjölskyldugarður rísi á Vestfjörðum og skapi þannig fleiri tækifæri fyrir foreldra og börn til að eiga ánægjulegar stundir saman. Minningin um ungan dreng sem ekki fékk tækifæri til að lifa og verða fullorðinn maður.
Garðurinn á að vera vettvangur til að eiga ánægjulega stund með börnum okkar og barnabörnum, þar sem fjölskyldan getur glaðst saman. Garðurinn er ætlaður sem góður og gleðilegur vettvangur til að hugleiða út á hvað lífið gengur eða hvað sé okkur dýrmætast í lífinu.

 

Nánari upplýsingar á www.raggagardur.is