Fara í efni

Skessuhorn í Borgarfirði

Borgarnes

Skessuhorn í Borgarfirði er eitt besta útsýnisfjall Borgarfjarðar 967 metrar. Það hefur stundum verið nefnt Matterhorn Íslands vegna þess hversu því svipar til þess fræga fjalls í svissnesku ölpunum.  

Skessuhornið er lagskipt grágrýtisfjall og er gönguleið á það ekki stikuð. Ganga á fjallið er eingöngu fyrir vel þjálfaða og vel útbúna göngumenn. Óvanir ættu ekki undir neinum kringumstæðum að leggja til atlögu við Skessuhorn.  

Fjallið ber nafn af skessu nokkurri sem hafðist við í nágrenni þess. Hún þoldi illa sífelldar hringingar í kirkjuklukkum Hvanneyrarstaðar og reyndi að þagga niður í þeim með grjótkasti. Illa tókst henni að hitta, en steinarnir liggja á nokkrum stöðum í nágrenni Hvanneyrar sem sannyndamerki um tilraun þessa, meðal annarra Grásteinn sem liggur nærri veginum heim að staðnum.