Fara í efni

Breiðafjörður

Breiðafjörður er annar stærsti flói landsins og liggur á milli Vestfjarðakjálkans og Snæfellsness.  

Eyjar á Breiðafirði eru eitt af þrennu sem kallað hefur verið óteljandi á Íslandi. Auk eyjanna eru í flóanum aragrúi skerja sem fara í kaf á flóði. Áður fyrr var töluverður búskapur í eyjunum og byggð talsverð. Eyjabúskapur var um margt sérstakur og komust íbúarnir vel af því eyjarnar voru réttnefndar matarkistur. Enn eru þar hlunnindi af dún- og eggjatöku. 

Í straumskiptum milli flóðs og fjöru streymir mikill massi sjávar inn og út milli eyjanna og skerjanna. Straumarnir eru víða miklir og hættulegir minni bátum. Þessir straumar hafa átt þátt í að móta hið sérstæða breiðfirska bátalag.  

Aðalheimkynni hafarnarins eru við Breiðafjörð, en hann er í senn sjaldgæfasti og langstærsti ránfuglinn í íslensku fuglafánunni.