Minnisatriði um veður

-Hiti lækkar oftast um 6-8C við 1.000 mhækkun
-Í 10C hita niður við sjó getur því verið frost í 1400 m
-Yfirleitt vex vindhraði einnig með hæð
-Allhvass vindur í byggð getur verið stormur á fjöllum
-Veður versnar fyrr á fjöllum en láglendi
-Ský á fjöllum og heiðum merkir að þar er þoka
-Úrkoma er og miklu meiri til fjalla en á láglendi
-Ársúrkoma í Bláfjöllum 3-4 sinnum meiri en í Reykjavík

Hvernig er veðurútlitið?

Veður á Íslandi getur breyst mjög snögglega. Þess vegna er mikilvægt að kynna sér veðurútlit áður en lagt er af stað í ferðalög, einkum yfir vetrartímann. Á Veðurstofa Íslands má finna nýjustu veðurspár og einnig sérstakar veðurupplýsingar fyrir ferðafólk. Á heimasíðunni má m.a. fá upplýsingar frá sjálfvirkum veðurathugunarstöðvum víða um land sem uppfærðar eru reglulega allan sólarhringinn.

Upplýsingar um veður

Í Veðursíma Veðurstofunnar (s: 902 0600) eru einnig veittar nákvæmar upplýsingar um veður og veðurhorfur um landið allt og fyrir einstök landssvæði, sjóveðurspá og veðurhorfur næstu daga.

Vinsælar vefsíður

Aðrar vinsælar upplýsingasíður með veðurspám eru m.a. Textavarp sjónvarpsins og vefur Morgunblaðið.

Vindkæling

Einhverra hluta vegna hefur umræða um vindkælingu ekki verið mjög áberandi meðal útivistarfólks. Sætir það reyndar nokkurri furðu í jafn vindasömu landi og Íslandi. Sums staðar mun jafnvel tíðkast að í veðurspá séu tölur um vindkælingu gefnar samhliða hitatölum.

Hér að ofan er tafla um vindkælingu sem fólk er hér með hvatt til að skoða. Í efstu línunni er hiti mældur í gráðum á celsíus. Í dálknum lengst til vinstri er síðan vindur mældur í metrum á sekúndu. Þegar vindhraðinn eykst verður meiri kæling, rétt eins og hitastigið hafi lækkað. Þegar til dæmis hitamælirinn sýnir –10 gráður og vindurinn mælist 8 metrar á sekúndu þá er eins og þú sért staddur úti í 29 stiga frosti. Þetta er sérstaklega vert að hafa í huga fyrir t.d. skíða- og vélsleðafólk sem oft er á talsverðri ferð í frosti. Þá getur kælingin á húðina orðið mikil og kalblettir verið fljótir að myndast.