Náttúruverndarsvæði - Perlur sem vert er að skoða

Friðlýsing merkir ekki að okkur sé bannað að njóta tiltekins svæðis. Þvert á móti. Með friðlýsingu er náttúra, sem mikilvægt er að varðveita vegna landslags, lífríkis eða sérstæðra jarðmyndana, tekin frá og henni hlíft til framtíðar.

Með friðun tryggjum við rétt okkar og komandi kynslóða til að njóta ósnortinnar náttúru.

Gera má ráð fyrir að friðlýst svæði séu sérstaklega áhugaverð fyrir ferðafólk, enda er hér um að ræða flestar okkar helstu náttúruperlur.

Því er fólk hvatt til að njóta þeirra í samræmi við reglurnar sem um þau gilda.

Fimm flokkar

Friðlýsingaflokkar skv. náttúruverndarlögum eru fimm: friðlönd, náttúruvætti, lífverur, búsvæði þeirra og vistkerfi, þjóðgarðar og fólkvangar. Á landinu eru einnig nokkur svæði friðlýst með sérlögum. Hin almenna regla er sú að á náttúruverndarsvæðum eru framkvæmdir takmarkaðar en almenningi tryggð för um svæðið. Á svæðum sem eru friðuð vegna fuglalífs er umferð manna oftast takmörkuð yfir varptímann. Ávalt ber að hafa í huga að friðlýsing á að tryggja verndun lífs og landslags og stuðla að því að notkun þess sé ekki umfram það sem náttúran þolir.

Skoðaðu svæðin

Reglur um friðlýst svæði eru mismunandi og fara eftir markmiðum friðlýsingar, eðli svæðisins og samkomulagi við hagsmunaaðila. Íslendingar hafa (jan 2020) friðlýst 114 svæði skv. lögum um náttúruvernd. Á vef Umhverfisstofnunar eru öll friðlýstu svæðin kynnt með ítarlegum upplýsingum.