Fróðleiksmolar um náttúruna

Dalalæða (næturþoka)

Þegar sumri fer að halla og nóttin að lengjast myndast oft þoka yfir landi, ekki síst í innsveitum, síðla nætur eða snemma morguns. Oftast léttir þokunni þegar sólin hefur náð að skína og verma upp landið og gerist þetta gjarnan á bilinu frá kl. 9-12 á morgnana. Stundum er þokan ekki þykkri en svo að háar byggingar standa uppúr og jafnvel er hún ekki dýpri en sem svarar einni mannhæð. Við slíkar aðstæður verður til nánast dulúðleg stemning enda margar sögur til um drauga og kynjaverur sem fara á kreik við þessi veðurskilyrði.

Sandurinn svarti

Íslenskir vegir liggja víða um stórar sand- og grjótauðnir; eins konar eyðimerkur. Á hálendinu, t.d. Sprengisandi eða Möðrudalsöræfum, eru auðnirnar land eins og það kom undan jöklum sem einu sinni þöktu þau svæði. Við ströndina, eins og t.d. á Mýrdalssandi og Skeiðarársandi, eru auðnirnar gerðar af framburði fljóta og jökulhlaupa. Þar er mikið af svörtum sandi. Slíkur sandur er einnig víða í fjörum; einkum um sunnanvert landið.

Svarti sandurinn er að stórum hluta malað hraun. Algengustu íslensku hraunin eru úr mjög dökkri bergtegund sem heitir basalt. Jöklar, ár, vindur og sjór mylja mikið af hrauni á hverju ári. Svört eða dökkleit mylsnan berst að hluta til láglendisins. En sumt af sandinum er svört eldfjallagjóska, t.d. úr Kötlugosum eða Grímsvatnagosum. Þegar eldgos verða undir ísnum í Mýrdals- og Vatnajökli berst mikið af bæði hraunmylsnu og gjósku fram á sandana með miklum vatnsflóðum undan jöklunum.

Landið undir jöklunum

Jöklar þekja 10-11% af Íslandi. Minnstu jöklarnir eru í skálum eða hlíðum fjalla, nokkrir meðalstórir jöklar þekja einstök fjöll en stærstu jöklarnir ná yfir geysistórt land. Þeir eru líka þykkir, 200-900 metrar og ísinn kannski 1000-2000 ára gamall. Stóru hveljöklarnir eru 5: Vatnajökull (8300 km2) Langjökull og Hofsjökull nálægt 1000 km2 hvor um sig), Mýrdalsjökull (tæpir 600 km2) og Drangajökull (um 160 km2).

Allir þekja þeir fjöll og dali og standa einstaka tindar upp úr ísnum og hjarninu. Undir öllum þessum jöklum, nema Drangajökli, eru stórar eldstöðvar, t.d. Grímsvötn og Katla. Í Vatnajökli eru auk þess öflug jarðhitasvæði og þar er 25 km langt vatn. Jökulsárlón á Breiðamerkursandi er bláendinn á því. Undir öllum jöklum er landið þakið grjótmulningi og sandi (botnurð). Þar er einnig leirblandað vatn. Klettar rispast og molna þegar ísinn skríður fram. Botnurðina má sjá framundan jökulsporðum víða um land.

Drangar og hellar

Sjórinn vinnur jafnt og þétt á landinu okkar. Öldur brjóta berg og flytja mulninginn fram og til baka við strendurnar. Svona sjávarrof getur verið afar stórvirkt. Surtsey, sem er bara 30 ára gömul, hefur minnkað um helming frá fæðingu. Við hálenda strönd eru klettar og höfðar með standbergi við sjóinn. Sífellt hrynur úr berginu. En bergið er mishart í sér. Sums staðar eru jarðmyndanir úr hörðu hrauni eða gamlar sprungur sem hraunkvika hefur þrýstst upp í fyrir löngu síðan. Slík lóðrétt lög kallast gangar.

Þegar sjórinn grefur frá göngunum eða öðrum hörðum jarðmyndunum, fer svo að lokum að þær standa einar eftir svolítinn spöl undan hömrum og björgum. Þannig verða til kynlegir drangar og klettar úti í sjó. En þeir falla auðvitað fyrr eða síðar. Sjávarrofið grefur líka hella í bergið. Ef tveir hellar ná saman úr gagnstæðum áttum, verður til spöng eins og í Dyrhólaey. Það getur líka gerst ef gat kemur á loft hella líkt og á Arnarstapa og í Hljóðaklettum.

Þúfurnar íslensku

Gróðurlendi á Íslandi er víðast hvar ólíkt því sem sjá má í útlöndum. Eitt það fyrsta sem menn reka augun í eru þúfurnar í móum og graslendi. Til er skrýtla um útlending sem hélt að þúfur væru gerðar af mannahöndum til að stækka yfirborð graslendis svo það gæfi meira af sér af grasi! Auðvitað eru þúfur ekki mannvirki heldur leikur náttúrunnar.

Af því að Ísland liggur á mörkum heimskautasvæðis og fremur hlýs svæðis er hitinn úti oft ýmist ofan eða neðan við 0°C. Hér eru tíð skipti á milli frosts og þíðu. Vatn í jarðvegi frýs eða þiðnar mörgum sinnum á viku að meðaltali ár hvert, yfir vetrartímann. Vatn þenst út þegar það frýs (öfugt við önnur efni) og þá þrýstast sandkorn, leirkorn, smásteinar og lífrænar leifar í moldinni upp og til hliðar. Á löngum tíma og við margendurteknar þíður verða sums staðar til smáhólar í jarðveginum en annars staðar dældir. Þannig myndast þúfurnar.

Moldin

Moldin stendur okkur nær en margt annað í náttúrunni. Við leikum okkur í henni sem börn, ræktum matvæli í henni og hún er undirstaða skógræktar og landbúnaðar. Hún er dýrmæt auðlind. Íslensk mold hefur öll orðið til á undanförnum 9.000 - 10.000 árum. Mold köllum við brúna og frjósamasta hluta jarðvegarins, en jarðvegur er í raun öll laus jarðlög sem gróður getur fest rætur í.

Íslenska moldin er úr þremur aðalþáttum (1) Áfoki; þ.e. leirkornum, sandi og gjósku sem berst með vindum, (2) leifum jurta og dýra og (3) efnum sem vatn leysir úr berggrunninum og jarðvegskornunum. Mest er um áfokið en minnst er af efnunum úr berggrunninum og jarðvegskornunum. Mold er að finna í þurrum jarðvegi (móajarðvegi) og í blautum jarðvegi (mýrarjarðvegi) og er þar að finna gróðursælustu svæði landsins.

Því miður hefur líklega um helmingur moldar í landinu runnið eða fokið burt á undanförnum öldum. Þess vegna þarf að varðveita, bæta og auka við moldina okkar sem allra mest og hraðast.