Fara í efni

Startup Westfjords

Til baka í viðburði
Hvenær
24. september - 2. október
Hvar
Blábankinn, Fjarðargata 2, 470 Þingeyri
Klukkan
10:00-17:00

Startup Westfjords

Ert þú með hugmynd?

Staldraðu við og leyfðu hugmyndinni að blómstra.

Taktu þátt í Startup Westfjords 2022: „Frá hugmynd til framkvæmdar“

Að þessu sinni fer nýsköpunarhemillinn Startup Westfjords fram yfir tvær helgar í haust, þ.e. 24.-25. september og 1.-2. október.

Dagskrá er frá kl. 10-17 alla dagana, með fyrirlestrum, hugarflugsfundum, einkatímum með mentorum og frjálsum tíma.

Helstu dagskrárliðir eru:

  1. Stofnun fyrirtækis
  2. Fjármögnun, þ.á m. lán og styrkir
  3. Bókhald og fjármálastjórn
  4. Markaðssetning, þ.á m. vörumerki (e. branding) og notendaupplifun
  5. Umbúðir og framsetning
  6. Samfélagsmiðlar
  7. Verkefna- og tímastjórnun
  8. Vellíðan og jafnvægi

Aðstaða í samvinnurýmum Blábankans verður í boði á meðan á dagskrá stendur, sem og í vikunni á milli eiginlegrar dagskrár fyrir þau sem kjósa að dvelja á svæðinu allan tímann.

Til viðbótar við dagskrá hemilsins er innifalið í gjaldinu hádegismatur og drykkir á meðan á honum stendur.

Startup Westfjords 2022 fer fram á íslensku en einkatímar með mentorum eru í boði á íslensku og ensku.

 

Startup Westfjords er nýsköpunarhemill hjá Blábankanum fyrir frumkvöðla og skapara sem þora að fara í aðra átt. Hemillinn er fyrir sprotafyrirtæki, teymi og einstaklinga með nýsköpunarverkefni á öllum stigum, hýst á Þingeyri, Vestfjörðum.

Nýsköpunarhraðall er fyrirbæri sem frumkvöðlar kannast vel við. Nýsköpunarhemill hins vegar býður fólki upp á einstakt tækifæri til að staldra við, aftengjast hraða hversdagsleikans, öðlast skýrleika, einbeitingu og leyfa verkefninu að blómstra. 

Hvað er í boði?

Ef þú ert valin/n í hemilinn færðu aðgang að vinnuaðstöðu í Blábankanum, samfélags- og frumkvöðlasetrinu á Þingeyri. Reyndir ráðgjafar frá mismunandi sérsviðum munu hjálpa þér að koma verkefninu þínu áfram. Alla dagana verða ráðgjafar með fyrirlestra á morgnana sem þróast yfir í samtal um verkefnið þitt. Þess á milli verður tími til þess að vinna sjálfstætt í vinnurými Blábankans og taka þátt í þeim ótal hvetjandi hlutum sem hægt er að gera á Þingeyri. Þú munt fá tækifæri til að tengjast sjálfum þér, umhverfinu og öðrum þátttakendum í einstöku umhverfi. Við elskum að taka á móti frumkvöðlum. Blábankinn fjárfestir hins vegar ekki beint í verkefnum. Dagarnir og kvöldin eru ekki skipulögð til hins ítrasta, fyrir utan valfrjálsa viðburði, svo þú þarft að vera sjálfknúinn og nýta þér þetta tækifæri sem best.

10.000 kr.

Aðrir viðburðir