Fara í efni

Litir augans

Til baka í viðburði
Hvenær
3. júlí - 3. júlí
Hvar
Svavarssafn
Klukkan
09:00-15:00

Litir augans

Á sumarsýningu Svavarssafns í ár teflir Erla Þórarinsdóttir litríkum málverkum sínum saman við litaheim hins látna meistara.

Svavar fæddist og ólst upp í Hornafirði og litadýrðin í málverkum hans speglar birtuna í sveitinni undir Vatnajökli, þótt hann hafi seinna dvalið lengi í Danmörku og meðal annars sýnt í París. Erla sækir líka liti sína í náttúruna, bæði hina ytri og innri náttúru, því orkustöðvarnar í líkama okkar og anda endurspegla birtuna í umhverfinu og alla litina sem þar teiknast fram.

Í sýningarskrá segir Jón Proppé, sýningarstjóri: „Hjá Erlu endurspeglar ljósheimurinn líka hinn innri heim og átök litanna endurspegla átökin sem eiga sér stað í sál okkar og líkama. Í okkur býr bæði ljós og myrkur, andstæðir litir og samstæðir, harka og mildi, fegurð og ljótleiki. Það er svo ævistarf okkar að reyna að koma öllu þessu í einhvers konar jafnvægi án þess að tapa við það orkunni, án þess að úr verði tóm lognmolla. Orkustöðvar líkama og sálar eru eins og litir í málverki og það er jafn erfitt að finna í þeim samhljóminn. Gott málverk er eins og góð manneskja.“

Á fáum stöðum birtist litheimur náttúrunnar með slíkum mikilfengleik og þegar sumarsólin roðar jökulinn og sveitina í Hornafirði. Sýning Erlu og Svavars stendur til 30. september og svo listunnendum gefst gott tækifæri til að upplifa þar samspil myndlistarinnar við töfra náttúrunnar.

 

Aðrir viðburðir

28. maí - 28. maí

Fimmtudagsfjör í Gamla fjósinu

Gamla fjósið
5.- 6. jún

Hengill Ultra 2020

5.- 7. jún

Námskeið hjá Glacier Adventure - Jökla 2 & 3

Glacier Adventure, Höfn í Hornafirði
5.- 7. jún

Fjallaskíðamót

Kerlingarfjöll