Huglendur - Bjarni Sigurbjörnsson og Ferðalangur - Kristinn Már Pálmason
Verið velkomin á opnun tveggja sýninga á Ljósanótt, fimmtudaginn 5. september kl. 18:00: Huglendur – Bjarni Sigurbjörnsson og Ferðalangur – Kristinn Már Pálmason.
Huglendur - Bjarni Sigurbjörnsson
Fyrir Bjarna Sigurbjörnsson er myndflöturinn auðn sem þarf að kveikja til lífs og merkingar. Með pentskúfi, en án fyrirhyggju, markar hann fyrir striki eða stroku; sérhvert þessara ummerkja er vitnsburður um líkamlegt inngrip hans í veruleika myndflatarins, ekki tilraun til að draga upp „mynd“ af einhverju sem við teljum okkur þekkja í raunheimi.
Bjarni Sigurbjörnsson (1966) útskrifaðist með MFA-gráðu í myndlist frá San Francisco Art Institute, Bandaríkjunum, árið 1996 og BFA-gráðu frá sama skóla árið 1992. Hann hefur haldið fjölda einkasýninga og verið valinn á samsýningar víða. Bjarni hefur kennt við alla helstu listaskóla landsins og staðið fyrir eigin námskeiðum, ásamt því að sitja í ýmsum myndlistarnefndum og stjórnum.
Sýningarstjóri: Aðalsteinn Ingólfsson
Ferðalangur – Kristinn Már Pálmason
Sýningin er ferðalag um myndlistarferil Kristins Más Pálmasonar, en meirihluti verkanna er gjöf listamannsins til Listasafns Reykjanesbæjar.
Myndverk Kristins takast á við frumspekilega brotakennda hugmynd skynseminnar um skapara heimsins, þar sem hvert tákn er sjálfstæð eining með sitt eigið þyngdarafl og sinn sérstæða lofthjúp.
Kristinn Már Pálmason (1967) útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1994 og með MFA-gráðu frá The Slade School of Fine Art, London, árið 1998. Hann hefur haldið fjölmargar einkasýningar og verið valinn á samsýningar víða. Kristinn er einn af stofnendum Kling & Bang árið 2003 og gallerí Anima 2006-2008.
Sýningarstjóri: Helga Þórsdóttir
Sýningarnar eru styrktar af Safnasjóði og Stapaprenti.
Huglendur og Ferðalangur standa til 5. janúar 2025.