Sagnheimar - byggðasafn
Sagnheimar - byggðasafn
Sagnheimar eru nýtt safn sem byggir á gömlum merg byggðasafnsins. Margmiðlun er nýtt í viðbót við safnmuni til að segja einstaka sögu Vestmannaeyja, má þar nefna:
Heimaeyjargosið 1973
Aðfararnótt 23. janúar hófst eldgos í Heimaey. Þá um nóttina voru nær allir íbúarnir, um 5.300 manns, fluttir til lands. Af um 1345 húsum fór um þriðjungur undir ösku og annar þriðjungur skemmdist. Á sýningunni getur að líta fjölda ljósmynda auk þess sem unnt er að hlusta á viðtöl.
Tyrkjaránið 1627
16. júlí 1627 læddust þrjú skip upp að austurströnd Heimaeyjar og á land stigu 300 sjóræningjar. Í þrjá daga æddu þeir um eyjuna með hrópum og köllum, hertóku fólk og drápu miskunnarlaust. Af um 500 íbúum höfðu sjóræningjarnir með sér 242 fanga til skips og seldu á þrælamarkaði í Alsír. Saga Tyrkjaránsins er sögð í formi teiknimynda.
Hættulegasta starf í heimi?
Sjómennskan og fiskvinnsla skipa mikilvægasta sessinn í lífi Eyjamanna. Fjallað er um þróun fiskveiða, sjómannslífið, hættur og hetjudáðir, björgunarstörf, vinnslu í landi og verbúðarlíf í máli og myndum í viðbót við gamla muni. Í gamalli talstöð má heyra bæjarbúa segja sögu sjóslysa.
Opnunartími
1. maí - 30. september: alla daga frá 10:00-17:00
1. október - 30. apríl: Laugardaga 13:00-16:00, aðra daga lokað (opið eftir samkomulagi)