Fara í efni

Kría Guesthouse

Kría Guesthouse er gistiheimili í hjarta Borgarness þar sem boðið er upp á þægilega gistimöguleika á góðu verði. Gistiheimilið er staðsett á litlum tanga við Borgarvog, sem jafnan er nefndur Dílatangi. Útsýnið frá gistiheimilinu er einstakt - tignarlegt Hafnarfjallið á aðra hönd og útsýni yfir Mýrarnar, Snæfellsnesið og Snæfellsjökul. Fuglalíf er fjölskrúðugt á leirunum fyrir neðan húsið og möguleikarnir á fuglaskoðun því einstakir. Þó gistiheimilið sé staðsett á afviknum stað, í enda rólegrar botnlangagötu, er stutt í alla þá þjónustu sem Borgarnes hefur upp á að bjóða. Í aðeins um 500 m fjarlægð er lítill verslunarkjarni þar sem finna má matvöruverslun, apótek og ýmsar sérverslanir. Örlítið lengra í burtu, eða við Borgarfjarðarbrúna, má finna bakarí, kaffihús og aðrar verslanir. Í aðeins 10 mínútna göngufæri er glæsileg útisundlaug Borgnesinga, Skallagrímsgarður, Borgarneskirkja, Landnámssetrið, og ýmis listagallerý.

Kría guesthouse býður upp á tvö rúmgóð herbergi sem henta vel fyrir einstaklinga, pör, og fjölskyldur. Bæði herbergin eru með nýjum, uppábúnum rúmum; einbreiðum eða tvíbreiðum. Það eru handlaugar inni á báðum herbergjum, ásamt hárblásurum. Ungir ferðalangar eru að sjálfsögðu velkomnir og hægt er að útvega barnastóla og barnarúm.

Kría Sumarhús eru í landi Skeljabrekku, undir hinu tignarlega Brekkufjalli í Andakíl. Sumarhúsin eru staðsett við veg 50, aðeins 6 km sunnan við Borgarnes. Þetta er tilvalinn staður að dvelja á í nokkra daga, margir vinsælir ferðamannastaðir eru í stuttu akstursfæri - td er góð dagleið að aka að Deildatunguhver, Barnafossum og Húsafelli, Hvalfjörð, og Akranes eða á Snæfellsnes. Sumarhúsin eru staðsett við Andakílsá. Þar er fjölskrúðugt fuglalíf, til dæmis er þar eitt stærsta varp Brandanda (Tadorna tadorna) á Íslandi. Frá sumarhúsunum er frábært útsýni yfir Hvanneyri og nærliggjandi sveitir, til Snæfellsjökuls, Vesturfjalla og Baulu - drottningu borgfirskra fjalla. Sólsetur er þar ægifagurt og ekki síðri norðurljós að vetrarlagi.

Hús 1 er 60 m2; þar eru 2 svefnherbergi með 120 cm rúmi í hvoru herbergi, stofa með 140 cm svefnsófa, borðstofa og rúmgott eldhús með borðbúnaði og öllum áhöldum, eldavél og bakaraofni. Sturta og klósett eru í tveimur aðskildum herbergjum, sem er hentugt ef margir gestir eru í húsinu.

Hús 2 er 12 m2 og þar er svefnrými fyrir allt að þrjá; 120 cm svefnsófi og efri koja. Þar er einnig salerni og handlaug.

Hús 3 er 40m2. Gistirými fyrir 5 - tvíbreitt rúm, efri koja og svefnsófi í stofu. Aðgengi fyrir fatlaða.

Húsin eru leigð út að lágmarki 2 nætur og með uppábúnum rúmum og handklæðum.

Hvað er í boði