Fara í efni

Kötlusetur

Ferðagjöf

Kötlusetur er menningarmiðstöð Mýrdælinga, staðsett í elsta húsi bæjarins, Brydebúð. Húsið var upphaflega byggt í Vestmannaeyjum árið 1830 en var svo flutt til Víkur árið 1895 og þjónaði sem verslunarhús um aldarbil. Heimsókn í Kötlusetur er fróðleg og skemmtileg fyrir fólk á öllum aldri:

Gestastofa Kötlu jarðvangs
Gestastofa Kötlu jarðvangs sérhæfir sig í náttúru og menningararfi á áhrifasvæði eldfjallsins Kötlu. Á Kötlusýningunni geta gestir snert og skoðað mismunandi steintegundir og ösku, virt fyrir sér þrívíddarlíkan af jarðvanginum og lært um jökla, eldfjöll og sanda sem einkenna Kötlu jarðvang. Einnig eru til sýnis uppstoppaðir fuglar af þeim tegundum sem lifa á svæðinu og vönduð heimildarmynd Þóris Kjartanssonar um sögur og sagnir af Kötlugosum (20 mín.).

Sjóminjasafnið Hafnleysa
Sjóminjasafnið Hafnleysa segir sögu sjósóknar í Vík, sem er eina sjávarþorp landsins þar sem aldrei hefur verið höfn. Hér er sögð saga skippstranda og erfiðs útræðis en þetta hafsvæði hefur löngum verið kallað skipakirkjugarður Evrópu. Aðal djásn safnsins er heillaskipið Skaftfellingur VE33 sem var byggt árið 1918 og á sér glæsta og forvitnilega sögu. Safnið hefur nýlega fengið uppfærslu og er áhersla lögð á að fræða og gleðja fólk á öllum aldri.

Halldórskaffi
Halldórskaffi er til húsa í Brydebúð, sömu byggingu og gestastofan. Þar er tilvalið að setjast í kaffi og köku eða fara út að borða með allri fjölskyldunni. Kaffihúsið er nefnt eftir Halldóri Jónssyni, kaupmanni og bónda í Suður-Vík. Halldórsverslun og Brydesverslun mörkuðu upphaf verslunar í Vík, skömmu fyrir aldamótin 1900. www.halldorskaffi.is

Hvað er í boði