Fara í efni

Dalakofinn - Ferðafélagið Útivist

Nýjasti skálinn í skálaflóru Útivistar er Dalakofi í Reykjadölum, í jaðri Torfajökulssvæðisins að Fjallabaki. Hann er sérlega vel staðsettur fyrir hvers konar ferðalög um Fjallabak. Þaðan er hægt að fara í lengri og styttri gönguferðir um fjölbreytt jarðhitasvæði og hæfileg dagsganga er þaðan í fjölda skála á svæðinu. Þá hentar staðsetning Dalakofans sérlega vel til vetrarferða. Frá Keldum er jafnan gott að komast í skálann og hvergi þarf að fara yfir ár. Þegar þangað er komið er hins vegar stutt í mjög skemmtilegt ferðasvæði um Reykjadali, Krakatindaleið og Hrafntinnusker svo eitthvað sé nefnt. Svæðið býður upp á ótalmarga möguleika og takmarkast þeir helst af þeim tíma sem ferðalangurinn ætlar sér. Kvöldum má eyða í stutta göngu á Keilu, útsýnishól skammt frá skálanum, eða fara í fjallabað í laug sem stundum er aðgengileg á aurum Markarfljóts.

Að Dalakofa er ekið um Fjallabaksleið syðri frá Keldum (F210). Þegar komið er að Laufafelli er beygt til norðurs að Hrafntinnuskeri og Krakatindsleið. Stuttu síðar er komið að gatnamótum þar sem skilti vísa annars vegar á Hrafntinnusker og hins vegar að Krakatindi. Þar er beygt til vinstri og Krakatindsleið ekin nokkurn spöl þar til komið er að gatnamótum þar sem beygt er til hægri að Dalakofa. Einnig er hægt að aka Krakatindsleið ur Dómadal þar sem leiðin liggur upp hjá Rauðufossum.

Skálavörður er í Dalakofanum á mestu annatímum.

GPS: N63°57.048 W19°21.584

Hvað er í boði