Fara í efni

Stuðlagil

Egilsstaðir

Að gefnu tilefni biðjum við alla sem heimsækja Stuðlagil að sýna varkárni og muna að þeir eru á eigin ábyrgð á svæðinu.

Jökla (Jökulsá á Dal) er jökulá, eins og nafnið gefur til kynna, og getur verið mjög straumhörð, jafnvel þótt ekki séu sýnilegir vatnavextir í henni. Straumar í ánni eru þungir og óútreiknanlegir og því geta auðveldlega skapast aðstæður sem reynast sundfólki lífshættulegar. Einungis er á færi fólks sem vel þekkir til svæðisins að lesa í straumlag árinnar. Við hvetjum því gesti okkar eindregið til að leggjast ekki til sunds í ánni né stökkva í hana af klettunum. Að auki minnum við á að steinar og klettar á árbakkanum geta orðið hálir og auðvelt er að hrasa á þeim og slasa sig.

Sýnum varkárni á ferðalögum og berum virðingu fyrir náttúrunni.

Stuðlagil er einstök náttúruperla í Jökuldal á Fljótsdalshéraði. Gilið var lengi lítt þekkt enda kom það ekki almennilega í ljós fyrr en eftir að Kárahnjúkavirkjun var tekin í notkun og vatnsmagnið í Jökulsá á Dal (Jöklu) snarminnkaði. Þar sést nú einstaklega vel ein stærsta og fallegasta stuðlabergsmmyndun á landinu og stuðlabergið er einstaklega myndrænt, sérstaklega þegar vatnið í ánni er tært. Athugið að tvær mjög ólíkar leiðir eru að Stuðlagili. Annars vegar er hægt að stoppa við bæinn Grund, en þaðan er mjög stutt ganga niður að gilinu. Þar er ekki hægt að fara ofan í gilið. Hins vegar er hægt að ganga um 5 kílómetra leið frá Klausturseli að gilinu en þeim megin er hægt að komast ofan í það.

Gönguleið frá Klausturseli
Keyrt er suður af hringveginum (vegi nr. 1) um Jökuldal rétt innan við Skjöldólfsstaði, inn á veg númer 923. Þaðan eru um 14 kílómetrar að bænum Klausturseli. Athugið að ekki má keyra yfir brúna, heldur er lagt á bílastæðinu vestan megin við hana. Þaðan er gengið yfir brúna og áfram eftir slóða, rúmlega 5 kílómetra löng ganga, þangað sem hægt er að komast niður í gilið. Á leiðinni er tignarlegur foss, Stuðlafoss, sem fellur fram af þverhníptu stuðlabergi. Þessi gönguleið er rúmlega 10 kílómetra löng samanlagt og þegar gert er ráð fyrir að stoppað sé við fossinn og gilið sjálft gæti hún tekið 3 tíma.

Það er mögnuð upplifun að fara ofan í gilið og upplifa stuðlabergið allt um kring en þegar komið er að gilinu ber að hafa í huga að klettar og steinar geta verið blautir og þar af leiðandi mjög sleipir.

Útsýnispallar við Grund
Keyrt er suður af hringveginum (vegi nr. 1) um Jökuldal rétt innan við Skjöldólfsstaði, inn á veg númer 923. Þaðan eru um 19 kílómetrar að bænum Grund. Þar eru bílastæði, salerni og örugg aðkoma að gilinu með stigum og pöllum en það tekur einungis um 5 mínútur að ganga að gilinu. Þar er gott útsýni niður í gilið og út eftir því, og fjölbreyttstuðlabergið nýtur sín.

Athugið að áin breytir um lit ef það er snjóbráð í Snæfelli og yfirfall verður á Hálslóni. Algengast er að yfirfall sé frá því í byrjun ágúst og fram í október en það getur þó verið á öðrum tímum. Hér er hægt að fylgjast með vatnshæð lónsins á vef Landsvirkjunnar.

Einnig er mikilvægt er að hafa í huga náttúra svæðisins er viðkvæm. Stuðlagil er nýr áfangastaður og aðsóknin mikil. Gestir eru því sérstaklega hvattir til að bera virðingu fyrir umhverfinu og ganga snyrtilega um. Á tímabilinu 1. maí til 10. júní verpa fjölmargar heiðagæsir á svæðinu. Þá er sérstaklega mikilvægt að gestir haldi sig innan merktra gönguleiða og gefi fuglunum nægt rými.

Frekari upplýsingar á heimasíðu Stuðlagils .