Fara í efni

Helgafell á Snæfellsnesi

Stykkishólmur

Helgafell á Snæfellsnesi er bær, fjall, og kirkjustaður með sama heiti, rétt við Stykkishólm sem vert er að heimsækja.  

Fjallið Helgafell, sem er úr blágrýti, er 73m og setur mjög svip sinn á umhverfið enda stílhreint og fagurlega lagað. Af því er fagurt útsýni yfir Breiðafjörð. Þar uppi er útsýnisskífa svo auðvelt er að átta sig á nálægjum kennileitum.  

Ganga er auðveld upp á Helgafell, göngustígur er stikaður og bílastæði neðan við fjallið. Þjóðtrúin segir hefja skuli sína fyrstu göngu á Helgafell frá leiði Guðrúnar Ósvífursdóttur sem sagt er að sé utan kirkjugarðs með grindum umhverfis. Sé ekki litið aftur né mælt stakt orð af munni á leiðinni upp, þá geti þrjár óskir uppfyllist. Óskirnar mega einungis vera góðs hugar, engum má segja þær og biðjandi þarf að snúa í austur.  

Margir aðrir nafnkunnir einstaklingar hafa setið Helgafell fyrr og síðar og þar var löngum prestssetur. Enginn prestur hefur þó setið staðinn síðan 1860. 

Árið 1184 var klaustur af Ágústínusarreglu flutt frá Flatey að Helgafelli og eftir það var staðurinn mennta- og höfuðstaður bóklegrar iðju á Vesturlandi. Upp á Helgafelli er tóft, hlaðinn úr hellugrjóti, sem talin er vera rúst af kapellu munkanna. Kirkja hefur verið á Helgafelli um aldir en núverandi kirkja var reist 1903 og tekur 80 manns í sæti.