Fara í efni

Gufuskálar á Snæfellsnesi

Hellissandur

Gufuskálar á Snæfellsnesi er eyðibýli fyrir utan Hellissand, sem vert er að skoða. Þar er mastur sem var um tíma hæsta mannvirki landsins og í kring eru ýmis ummerki um fyrri byggð.  

Staðurinn er kenndur við Ketil gufu Örlygsson er sat þar einn vetur að sögn Landnámu. Gufuskálar voru ysti bær í Neshreppi utan Ennis og fóru í eyði árið 1948.  

Gufuskálar voru mikil útgerðarstöð og hét verstöðin Móðuvör sem var nokkru utar en bærinn. Í lendingunni eru sjávarklappirnar með djúpum skorum sem eru för eftir kili bátanna er þeim var hrundið fram eða dregnir á land.  

Árið 1959 var reist lofskeytastöð (lóranstöð) á Gufuskálum, fyrir Lóran-C staðsetningarkerfi Breta og Bandaríkjamanna en var breytt til að hýsa landbylgjusendi RÚV árið 1997. Mastrið er 412 metra hátt.  

Á Gufuskálum hefur verið veðurathugunarstöð frá 1970. Þar skammt frá var gerður flugvöllur, rétt um 1950. Hann er nú aflagður en annar var gerður hjá Rifi 1973.