Öryggið í öndvegi

Allir í bílnum, fullorðnir sem börn, eiga að vera í öryggisbeltum eða öðrum öryggisbúnaði.

 Hæð höfuðpúða í mörgum bílum er stillanleg og ættu allir að huga að réttri stillingu.

Öryggisbúnaður barna

Börn undir 6 ára eiga að vera í sérstökum öryggisbúnaði, í bílstól eða á bílpúða og með spennt belti. Tryggja verður að öryggisbúnaður sé rétt notaður og að hann hæfi stærð og þyngd barnsins. Fylgjast verður með því hvort barn losi öryggisbúnað eða geri hann á einhvern hátt óöruggan svo sem með því að færa þverband öryggisbeltis undir handlegg. Barn á aldrei að vera í framsæti sem er með öryggispúða (loftpúða) sem springur út við árekstur.

Hugið að merkingum

Notið viðurkenndan öryggisbúnað fyrir börn. Öryggisbúnaður fyrir börn á að vera merktur ECE4403 eða FMVSS eða CMVSS. Athugið að öryggisbúnaður hæfi þyngd barnsins. Barnabílstólar eru merktir þeirri þyngd sem þeir eru hannaðir fyrir. Rétt er að nota barnabílstól þar til barnið hefur náð þeirri þyngd sem stóllinn er hannaður fyrir. Notið bakvísandi barnabílstóla eins lengi og kostur er. Rannsóknir á umferðarslysum í Svíþjóð sýna að börn eiga mesta möguleika á að sleppa við alvarleg meiðsl í umferðarslysum ef þau sitja í barnabílstól sem snýr baki í akstursstefnu.

Loftpúðar og börn

Öryggispúðar (loftpúðar) geta drepið börn. Barn má ekki sitja andspænis uppblásanlegum öryggispúða fyrr en það er a.m.k. 150 sm á hæð.

Gangið tryggilega frá farangri

Að ganga tryggilega frá farangri og lausum munum í bílnum er lífsnauðsyn. Þunga eða hvassa hluti á aldrei að geyma inni í bílnum en ef það er nauðsynlegt ættu þeir aldrei að vera við afturrúðu eða ofarlega í bifreið. Við árekstur geta lausir hlutir orðið að byssukúlum, jafnvel fallbyssukúlum, gegn þeim sem eru að öðru leyti vel spenntir í sæti og geta þannig stórskaðað ökumann og farþega. Slíka muni á að hafa á gólfi eða í farangursgeymslu.