Ef eitthvað bjátar á

"Ég hefði átt að... " kemur sennilega upp í huga margra ökumanna sem standa ráðþrota yfir biluðum bíl. Þess vegna er skynsamlegt að ganga úr skugga um að allt sé í lagi áður en lagt er af stað í ferðalagið.

Athuga þarf hvort helstu öryggisatriði, búnaður og ásigkomulag bílsins séu í lagi. Eru hjólbarðar bílsins nógu góðir, er varadekkið ekki örugglega í skottinu og er ekki loft í því? Hvað með skóflu ef um vetrarferðir er að ræða?

Komið að slysi

Ef komið er að slysi skal byrja á að kanna vettvang og koma í veg fyrir meira slys með því að tryggja aðstæður, sinna þeim sem eru alvarlega slasaðir s.s. að stöðva alvarlegar blæðingar og gera lífgunartilraunir ef með þarf og síðan tilkynna slysið í Neyðarlínuna í síma 112. Ekki má rjúfa samtal fyrr en neyðarlínan gefur merki þar um. Síðan snúa sér að vettvangi og sinna almennri skyndihjálp. Ef notaður er GSM sími er ráð að hringja á meðan staðið er í fyrstu aðgerðum. Ef komið er að slysi þar sem margir eru slasaðir, s.s. rútuslysi er ráðlagt að hringja strax eftir hjálp.

Gagnlegir vefir

Á vef Samgöngustofu má finna ýmsar ráðleggingar um öryggisbúnað, umferðarfræðslu og umferðarmerki og Útvarp Umferðarráðs, þar sem reglulega er fjallað um það sem efst er á baugi varðandi umferðaröryggi.

Einnig skal bent á vef Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) fyrir þá sem eru í ferðahug. Þar er mikið af gagnlegum upplýsingum. Þá hefur FÍB gert samninga við bifreiðaverkstæði víða um land um þjónustu fyrir þá félagsmenn FÍB sem lenda í vandræðum.