Akstur með ferðavagna

Óvönum getur reynst erfitt að aka með aftanívagn, t.d. fellihýsi, hjólhýsi eða tjaldvagn.

Mikilvægt er að haga akstri þannig að ökuhraði fari ekki yfir leyfileg hraðamörk á hverjum stað og ávallt sé ekið með tilliti til aðstæðna hverju sinni.

Reglur um þyngd

Eftirvagn má ekki vera þyngri en skráningarskírteini bílsins segir til um. Ennfremur eru vagnar skráningarskyldir sem eru yfir 750 kg að leyfðri heildarþyngd og allir tjaldvagnar, fellihýsi og hjólhýsi. Eftirvagnar eða tengitæki sem eru yfir 750 kg þurfa að vera búnir hemlum. Allir eftirvagnar/tengitæki þurfa að vera búnir afturljósum, stefnuljósum og hemlaljósum. Þyngd eftirvagnsins má heldur ekki fara yfir þau mörk sem tengibúnaðurinn segir til um.

Tryggið útsýnið

Fyrir akstur þarf að þrífa og stilla spegla vel til að sjónsvið ökumanns sé sem best. Varast ber að skyggja á baksýn með farangri við afturrúðu. Ef dreginn er eftirvagn, tjaldvagn, hjólhýsi eða annað sem hindrar baksýn verður að hafa spegla á framlengdum örmum svo ökumaður sjái aftur með eftirvagninum.

Skoðunarskylda

Vert er a minna á að ferðavagnar (tjaldvagnar, fellihýsi og hjólhýsi) eru skoðunarskyldir eftir að þeir hafa náð fjögurra ára aldri og síðan á öðru hvoru ári eftir það.

Nánar á vef Samgöngustofu