Akstur í óbyggðum

Aldrei virðist nógu oft áréttað að allur akstur utan vega og merktra slóða er bannaður á Íslandi. Jarðvegur landsins er viðkvæmur og óratíma getur tekið fyrir hjólför að hverfa.

Hjólför eru oft upphafið að atburðaráðs rofs og uppblásturs sem valdið getur gríðarlegum skemmdum og landeyðingu. Einnig er margsannað að ein slóð kallar á aðra því sá sem á eftir kemur kann að álykta að þarna megi aka.

En hvað með sand og ógróið land?

Þar sem stór hluti hálendisins eru sandar og auðn kynni einhver að halda að þar sé allt í lagi að aka utan vegar. Svarið er hins vegar einfalt. Það er jafn ólöglegt að aka utan vega og merktra slóða þar sem ekið er um ógróið land. Slík för eru jafnvel enn lengur að hverfa en þar sem gróður er og hjólför eru kjörin leið fyrir vatn til að renna og valda frekari skemmdum.

Akstur á snjó

Þótt almenna reglan segi að bannað sé að aka vélknúnum ökutækjum utan vega þá er heimilt að aka á snævi þakinni og frosinni jörð, svo fremi að ekki skapist hætta á náttúruspjöllum. Sama gildir um jökla. Sum svæði í þjóðgörðum eru þó lokuð allri vélknúinni umferð.

Hálendisakstur og óbrúaðar ár

Hálendið freistar margra enda ævintýraheimur sem vert er að njóta. Akstur á hálendinu krefst hins vegar mikillar varkárni, sérstaklega þar sem þar þarf alla jafna að aka yfir óbrúaðar ár. Margar ár á landinu eru straumharðar og djúpar og þær geta breyst á svipstundu hvað varðar rennsli og vað. Því þarf að huga vel að því að ökutækið þoli það sem fyrir það er lagt. Best er að ferðast í samfloti með vönum hálendisförum í sínum fyrstu fjallaferðum því í þessum efnum er reynslan besti kennarinn. Margar hálendisleiðir eru þess eðlis að þær ætti aldrei að fara einbíla.

Vöð á öllum helstu hálendisleiðum eru merkt en hins vegar er erfitt að gefa einhlítar reglur um akstur yfir ár. Þær eru mjög misjafnar, t.d. eftir því hvort um að ræða bergvatnsá eða jökulá. Jökulár eru jafnan sérstaklega varasamar því rennsli í þeim getur breyst mjög snögglega. Krossá í Þórsmörk er dæmi um varasama á sem margir hafa slæma reynslu af. Þegar líður á dagin vex jafnan talsvert í jökulám vegna bráðnunar en minnst er rennsli í þeim fyrst á morgnanna. Úrkoma hefur einnig áhrif á vatnsmagn.

Alla jafna er best að fara yfir á efst broti, en þar er venjulega grynnst. Varast þarf stóra steina sem leynst geta undir yfirborði vatnsins. Þar sem áin er lygn er venjulega dýpst og hætta á sandbleytu. Best er jafnan að keyra með straumi, þ.e. skáhalt niður ána. Þá hjálpar straumurinn bílnum yfir. Setja skal í fjórhjóladrif og lægsta gír og áður en lagt er út í ána og alls ekki skipta um gír á miðri leið. Loftinntak bíls þarf alltaf að vera ofan vatns því annars getur vélin skemmst Best er að vaða ána fyrst og kanna vaðið. Ef ekki er hægt að vaða ána er ekki ráðlagt óbreyttum jeppum að fara yfir hana.

Þeir sem vanir eru hálendisferðum kannast við að ólíkt því sem segir í máltækinu þá getur reynst happadrjúgt að hafa vaðið fyrir ofan sig þegar ekið er yfir á. Ástæðan er sú að oft er sjálft vaðið orðið djúpt í miðri ánni eftir mikla umferð og því betra að aka í smá sveig yfir ána, rétt fyrir neðan vaðið.

Hafa skal í huga að bifreiðatryggingar ná oftast ekki yfir akstur annars staðar en á aðalvegakerfi landsins.

Gott kort nauðsyn

Vert er að hafa í huga að merkingar fjallvega eru með allt öðrum hætti en í byggð og ekki alltaf einfalt að velja rétta leið þegar upp á hálendið er komið. Því er algerlega nauðsynlegt að verða sér út um staðgott landakort og afla sér upplýsinga um fyrirhugaða leið áður en haldið er úr byggð.

Opnun hálendisvega

Vegagerðin gefur út kort yfir ástand fjallvega í byrjun sumars og kemur nýtt kort út reglulega fram eftir sumri eftir því sem aðstæður breytast. Þessum kort birtast jafn óðum á vef Vegagerðarinnar. Þar er einnig að finna upplýsingabækling um opnun fjallvega sem sýnir hve snemma hver fjallvegur opnar.