Náttúruverndarsvæði

 • 4346484473_2178090ccd_o.jpg
 • 2416441526_d145136d2d_o.jpg
 • 434018640_ab6c9778f1_o.jpg
 • v_mg_1225.jpg
 • v_MG_9113.jpg
 • 3651308807_447dc66433_o.jpg
 • 383710987_1231d6d83f_o.jpg
 • 4390496444_34a6e9d817_o.jpg
 • 4347964191_dc43d41ffd_o.jpg
 • _MG_6418.jpg
 • _MG_4699.jpg
 • 090801_v_MG_3265.jpg
 • 090813_v_MG_4227.jpg
 • 090715_v_MG_2289.jpg
 • 090801_v_MG_3240.jpg
 • v_MG_0540.jpg
 • _MG_4720.jpg
 • _MG_5390.jpg
 • 12874-157-826.png
 • nordurljosHvalfjordurHvalfjordur-227.jpg
 • Thorsmork-WOW.jpg

Náttúruperlur sem vert er skoða

Friðlýsing merkir ekki að okkur sé bannað að njóta tiltekins svæðis. Þvert á móti. Með friðlýsingu er náttúra, sem mikilvægt er að varðveita vegna landslags, lífríkis eða sérstæðra jarðmyndana, tekin frá og henni hlíft til framtíðar. Með friðun tryggjum við rétt okkar og komandi kynslóða til að njóta ósnortinnar náttúru. Gera má ráð fyrir að friðlýst svæði séu sérstaklega áhugaverð fyrir ferðafólk, enda er hér um að ræða flestar okkar helstu náttúruperlur. Því er fólk hvatt til að njóta þeirra í samræmi við reglurnar sem um þau gilda.

Rösklega 100 svæði

Reglur um friðlýst svæði eru mismunandi og fara eftir markmiðum friðlýsingar, eðli svæðisins og samkomulagi við hagsmunaaðila. Íslendingar hafa (jan 2012) friðlýst 106 svæði skv. lögum um náttúruvernd. Á heimasíðu Umhverfisstofnunar eru öll friðlýstu svæðin listuð upp með upplýsingum um friðlýsingarskilmála o.s.frv.

Fimm flokkar

Friðlýsingaflokkar skv. náttúruverndarlögum eru fimm: friðlönd, náttúruvætti, lífverur, búsvæði þeirra og vistkerfi, þjóðgarðar og fólkvangar. Á landinu eru einnig nokkur svæði friðlýst með sérlögum. Hin almenna regla er sú að á náttúruverndarsvæðum eru framkvæmdir takmarkaðar en almenningi tryggð för um svæðið. Á svæðum sem eru friðuð vegna fuglalífs er umferð manna oftast takmörkuð yfir varptímann. Ávalt ber að hafa í huga að friðlýsing á að tryggja verndun lífs og landslags og stuðla að því að notkun þess sé ekki umfram það sem náttúran þolir.

Náttúruvætti

eru svæði og sérstæðar náttúrumyndanir svo sem fossar, eldstöðvar, hellar og drangar, fundarstaðir steingervinga og sjaldgæfra steintegunda sem mikilvægt er talið að varðveita sakir fræðilegs gildis þeirra, fegurðar eða sérkenna. Til þess að náttúruvætti fái notið sín er svæðið kringum það einnig friðlýst. Náttúruvættum má enginn granda, spilla né breyta.

Lífverur, búsvæði þeirra og vistkerfi

eru friðlýst vegna mikilvægis þeirra frá náttúrufræðilegu eða menningarlegu sjónarmiði og þannig komið í veg fyrir röskun, fækkun eða útrýmingu. Friðunin getur verið staðbundin eða náð yfir landið allt. Friðlýstar plöntur eru alls þrjátíuogein og eru þær friðaðar hvar sem þær finnast hér á landi. Einnig er að finna ákvæði í lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum,. Hér á landi hafa plöntur verið metnar skv. hættuflokkum Alþjóða náttúruverndarsamtakanna (IUCN) í Válista og sýnir válistinn að ríflega 10% blómplantna og byrkninga hér á landi þurfa sérstakrar aðgæslu við og um 15-20% af öllum fléttum, mosum og þörungum (sjá Válista 1, Plöntur, Náttúrufræðistofnun Íslands, 1996). Árið 2000 kom út Válisti 2, Fuglar. Ákvæðin um friðun búsvæða og vistkerfa voru fyrst sett í lög 1996 og Vorið 2002 var jörðin Hvanneyri friðuð sem búsvæði blesgæsar. Einnig má telja að til stofnunar sumra friðlanda hafi komið af þessum sömu ástæðum.

Friðlönd

eru landsvæði sem mikilvægt er að varðveita vegna sérstaks landslags, gróðurfars eða dýralífs. Í friðlöndum má ekki raska náttúrufari eða gera þar mannvirki sem spillt geta svip landsins. Í friðlýsingu friðlanda er nánar kveðið á um hversu víðtæk friðunin er, takmarkanir á framkvæmdum og um umferð og umferðarrétt almennings svo og heimildir til veiða.

Þjóðgarðar

eru friðlýst landsvæði sem eru sérstæð um landslag, gróðurfar og dýralíf eða sögulega þýðingu þannig að ástæða er til að varðveita svæðið með náttúrufari sínu og leyfa almenningi aðgang að því eftir tilteknum reglum. Landsvæði þjóðgarða skulu vera í ríkiseign, nema sérstakar ástæður mæli með öðru og um það náist samkomulag milli umhverfisráðherra og landeigenda. Á landinu eru tveir þjóðgarðar friðlýstir skv. náttúruverndarlögum, Vatnajökulsþjóðgarður og Snæfellsjökull. Þingvellir eru í eigu ríkisins og er svæðið friðlýst með sér lögum. Svæðið er jafnan flokkað sem þjóðgarður.

Fólkvangar

eru friðlýstir að ósk sveitarfélags eða sveitarfélaga og er tilgangurinn að tryggja almenningi aðgang að svæðum til þess að njóta útivistar.

Önnur friðuð svæði

eru landsvæði sem friðuð eru með sér lögum. Alls eru þrjú svæði friðlýst með þessum hætti en þau eru Þingvellir, Mývatn og Laxá og Breiðafjörður.

Umhverfisstofnun hefur umsjón með náttúruverndarsvæðum í umboði umhverfisráðherra. Fekari upplýsinga um starfsemi stofnunarinnar og þjónustu á náttúrverndarsvæðum má nálgast á heimasíðu Umhverfisstofnunar og hjá þjóðgarðsvörðum. Þar er einnig að finna frekari upplýsingar um náttúruminjar og önnur landsvæði sem skráð eru á náttúruminjaskrá.